Search

Upplýsingar varðandi lögmæti Drivers


Athygli hefur vakið að í umræðum um Drivers hefur því stundum verið haldið fram að starfsemi Drivers sé ólögleg. Að því tilefni er rétt að gera stuttlega grein fyrir því hvers vegna þetta er ekki raunin.

Reglur um leigubifreiðaakstur og tengda starfsemi er að finna í lögum nr. 134/2001 um leigubifreiðar og reglugerð um leigubifreiðar nr. 397/2003. Þar er tilgreind sú starfsemi sem þarf sérstök leyfi til að starfrækja. Það eru leigubifreiðaakstur, rekstur leigubifreiðastöðva, akstur forfallabílstjóra (harkara) og leyfi fyrir námskeiðahald. Starfsemi sem ekki er talin upp í lögunum fellur ekki undir þau.

Snjallforritið Drivers er vettvangur fyrir leigubifreiðastjóra til að komast í samband við viðskiptavini. Farþegi sem óskar eftir að kaupa sér far með leigubifreið á nokkra valkosti. Algengast er enn að farþegar óski eftir þjónustu leigubifreiðastjóra með því að hringja í símaver leigubifreiðastöðva. Einnig er nokkuð um að farþegar einfaldlega nái athygli leigubifreiðastjóra á götum úti eða á biðstöðvum leigubifreiða. Þá er nokkuð um að farþegar hringi beint í ákveðna leigubifreiðastjóra eða biðji móttökuritara hótels um að panta leigubifreið fyrir sig. Þjónusta Drivers er sambærileg við þjónustu fjarskiptafyrirtækisins og hótelsins í síðastnefndu tilvikunum hvað lög um leigubifreiðar varðar. Þjónustan sem Drivers veitir snýr að því að auðvelda bein samskipti milli kaupenda og seljenda þjónustu leigubifreiðastjóra en Drivers selur ekki þjónustu leigubifreiðastjóra og raunar tekur ekkert endurgjald fyrir veitta þjónustu.

Þar sem Drivers hvorki rekur leigubifreiðar né leigubifreiðastöð fellur starfsemin ekki undir leyfisskilda starfsemi samkvæmt lögum. Þar sem almenna reglan er sú að öll starfsemi sem ekki er bönnuð samkvæmt lögum er lögleg er erfitt að sjá hvernig hægt væri að komast að þeirri niðurstöðu að starfsemi Drivers sé ólögleg.

Við hjá Drivers sýnum því hins vegar skilning að samskiptalausn sem sérsniðin er að þörfum starfsleyfisskyldrar stéttar kunni að vekja áhyggjur hjá hagsmunaaðilum. Flestum er líklega kunnugt um hvernig ólöglegur akstur með farþega gegn greiðslu hefur aukist með tilkomu samfélagsmiðla og er þar þekktasta dæmið Skutlarar hópurinn á Facebook. Þó starfsemi Facebook falli utan gildissviðs laga um leigubifreiðar af sömu ástæðum og Drivers er sá munur þó á að hjá Drivers er lögð rík áhersla á að koma með virkum hætti í veg fyrir að samskiptalausnin verði notuð til lögbrota.

Aðeins leigubifreiðastjórum með tilskilin starfsleyfi, sem eru þá um leið skráðir á leigubifreiðastöð, veittur aðgangur að þeirri hlið hugbúnaðarlausnar Drivers sem ætluð er leigubifreiðastjórum. Þeir sem óska eftir aðgangi að þeirri hlið þurfa að leggja fram sönnun fyrir réttindum sínum áður en aðgangur er virkjaður. Þá er gert ráð fyrir að árlega sé farið fram á endurnýjun sönnunar.

Ekkert af þessu er Drivers skylt að gera, þetta er einfaldlega eitthvað sem Drivers kýs að gera enda hefur Drivers engan áhuga á að liðka fyrir lögbrotum. Þetta er framkvæmt í skjóli samningafrelsis og kjósi leigubifreiðastjóri af einhverjum ástæðum að leggja ekki fram þá sönnun sem farið er fram á stendur viðkomandi einfaldlega ekki til boða að nota Drivers.

Starfsemi Drivers hefur ekki áhrif á starfsemi leigubifreiðastöðva umfram það að minnka álag á símaver þeirra. Leigubifreiðastöðvar hafa óháð starfsemi Drivers sínum lögbundnu hlutverkum að sinna gagnvart leigubifreiðastjórum, farþegum og stjórnvöldum.

Drivers hvetur alla til að taka ekki fullyrðingum um lögbrot sem sannleika heldur skoða slíkar fullyrðingar með gagnrýnum augum og ef til vill biðja þá sem setja þær fram um að rökstyðja þær.

8 views0 comments